Pallurinn og garðurinn

Pallurinn byggður

Þegar pallurinn er byggður þarf að hafa í huga hvaða pallaefni skal nota og hvernig jarðvegurinn er undir. Hér er m.a. farið yfir hvaða efni er gott að nota í dregara, bil milli dregara, dýpt á holum, hvernig jarðvegurinn er, klæðning á palli og hvernig skrúfur og nagla er gott að nota.

Pallaefni og jarðvegur

Þegar sólpallur er byggður er gjarnan notuð 45x145 mm gagnvarin fura í dregara sem hafðir eru með 150 til 200 cm millibili. Ef jarðvegur er moldarkenndur og gljúpur er nauðsynlegt að grafa holur og steypa undirstöður fyrir dregarana með um 200 cm millibili. Dýpt á holum er gjarnan um 70-80 cm. Ef jarðvegur er frostlaus og fastur fyrir getur verið gott að nota galvaniseraðar járnundirstöður, 100x100 mm.

Ofan á dregarana eru settir bitar úr gagnvarinni furu, 45x95 mm eða 45x120 mm, en stærð þeirra fer gjarnan eftir bilinu sem er á milli dregaranna. Algengasta fjarlægð milli bita er 55 cm. Til að festa bita við dregara er gott að nota byggingarvinkla.

Sólpallurinn er klæddur með gagnvarinni furu, 22x95 eða 27x95 sm og fer það eftir álagi sem verður á pallinum hvor þykktin er notuð. Best er að nota ryðfríar skrúfur eða nagla til að festa klæðningarefnið niður. Haft er 5 mm bil milli klæðningarborða.

Ef pallurinn er lagður beint á jarðveg þarf að ganga úr skugga um að hann sé algjörlega frostlaus svo að pallurinn verði stöðugur. Nauðsynlegt er að jafna jarðveginn vel undir pallinum og er þunnt lag af sandi notað sem efsta lag. Gott er að leggja jarðvegsdúk ofan á jarðveginn til að koma í veg fyrir gróðurmyndun undir pallinum. Bitarnir eru lagðir beint á jarðvegsdúkinn/sandinn og er gott að festa þá niður með steypustálsteinum sem reknir eru niður hjá þeim. Hentug efnisstærð á bitum er 45x45 mm gagnvarin fura. Í þessari gerð af pöllum er aðallega notuð 22x95 mm klæðning og er gengið frá henni eins og fyrr var lýst.


Viðhald á pallinum

Til þess að halda fallegum og góðum palli sem nýtur sín vel í garðinum er gott að viðhalda honum vel. Hér förum við yfir hvað þarf að hafa í huga áður en við hefjumst handa og hvernig best er að viðhalda pallinum.Viðhald á sólpalli

Hvað þarf að hafa í huga áður en við byrjum?

Áður en framkvæmdir á sólpalli hefjast er gott að hafa nokkur atriði í huga og mikilvægt er að yfirfara þau verkfæri sem þarf í verkið. 

 • Taka vel til á sólpallinum. Færa alla óæskilega hluti og sópa vel þannig að það sé auðveldara að athafna sig.
 • Viðarhreinsir er borinn á viðinn. Athugið að mismunandi efni geta verið með mislanga virkni. Lesið því allar leiðbeiningar vel áður en efnin eru notuð.
 • Sólpallurinn skrúbbaður með stífum bursta og vatni. Ef völ er á þá er einnig gott að nota háþrýstidælu til verksins.
 • Gefa sólpallinum tíma til að þorna. Gott er að nota rakamæli til að mæla rétt rakastig. Ákjósanlegast er 20% rakastig.
 • Ef viðurinn er úfinn er gott að slípa létt yfir hann með sandpappír og gæta þess að sópa vel yfir pallinn að því loknu. Mikilvægt er að vanda vel til verksins þar sem ójöfn slípun getur valdið litamun. 
 • Að endingu berum við viðarolíu á allan flötinn. Hér skiptir mestu máli að bera jafnt yfir allan flötinn og varast að pollar eða taumar myndist. Hér má sjá nokkrar aðferðir við að bera á pallinn. Ef sólpallurinn er mjög þurr og illa farinn þá er um að gera að setja aðra umferð af viðarolíu pallinn.
 • Lokafrágangurinn snýst um að þurrka upp polla eða tauma með bómullarklút eftir áburð. 

Meðhöndlun á yfirborði viðar

 • Viðurinn þarf að vera vel þurr (rakainnihald minna en 20%).
 • Best er að meðhöndla allt tréverk áður en það er sett upp utandyra. Rannsóknir staðfesta að þannig má margfalda endingu viðarvarnarefna.
 • Ef viðurinn er látinn standa óvarinn utanhúss valda útfjólubláir geislar sólarinnar niðurbroti á yfirborði viðarins og viðurinn verður grár. Þennan gráma verður að fjarlægja ef tryggja á góða endingu.
 • Leggja ber ríka áherslu á að metta endatré þannig að vatn eigi ekki greiða leið inn í opin sár viðarins.
 • Gagnvarinn viður þarf að standa í 3-4 mánuði áður en yfirborð hans er meðhöndlað.
 • Rétt þykir að vara við notkun á galvaniseruðum saumi undir ljósa liti í vatnsþynntum viðarvarnarefnum vegna hættu á ryðsmiti í gegnum málninguna. Tryggast er að nota ryðfría nagla og/eða skrúfur.
 • Tvær aðferðir eru algengastar við að gagnverja timbur, þ.e. A- og B-vörn. A-vörn er með grænleitum lit en B-vörnin er með olíublönduðum efnum og er litlaus.

Gagnvarið timbur

 • Notuð eru vatnleysanleg og sveppaeiturefni og er sú vörn oftast nefnd þrýstifúavörn.
 • Yfirborðið þarf að meðhöndla á sama hátt og á öðru timbri gegn ágangi vatns og sólarljóss.
 • Ráðlagt er að leyfa timbrinu að þorna vel eftir að það er gagnvarið og áður en það er yfirborðsvarið.
 • Berið á timbrið feitan olíugrunn og síðan venjulega viðarvörn.
 • Varast skal að setja þekjandi viðarvörn á lárétta fleti.
 • Nauðsynlegt er að nota litaða viðarvörn til að minnka áhrif sólarljóss á timbrið. Ef gagnvarið efni er sagað, heflað eða unnið á annan hátt þarf að bera í sárið viðurkennt fúavarnarefni.

Yfirborð timburs má meðhöndla nokkrum dögum eftir að það er gagnvarið

Ekki er nauðsynlegt að bera feitan olíugrunn á nýlega gagnvarið timbur. Að öðru leyti gilda sömu reglur um yfirborðsmeðhöndlun á A- og B-vörðu timbri.

Viðhald á pallinum

 • Viðarhreinsir er borinn á viðinn. Athugið að mismunandi efni geta verið með mislanga virkni. Lesið því allar leiðbeiningar vel áður en efnin eru notuð.
 • Skrúbbað með stífum bursta eða háþrýstiþvoið.
 • Láta viðinn þorna vel.
 • Gott er að slípa létt yfir viðinn með sandpappír ef viðurinn er úfinn en gætið þess að það getur valdið litamismun.
 • Berið viðeigandi viðarolíu á viðinn og þurrkið yfir með bómullarklút eftir áburð.


Viðhald á viðarhúsgögnum

Það er gaman að koma saman í garðinum í góðu veðri. Þá er skemmtilegra ef húsgögnin eru í góðu ástandi. Viðarhúsgögnin í garðinum eru oft úti allan ársins hring og því er mikilvægt að hugsa vel um þau svo þau endist eins lengi og mögulegt er. 


Viðhald á viðarhúsgögnum

Leiðbeiningar fyrir viðhald á viðarhúsgögnum

Þegar viðhalda skal viðarhúsgögnum eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga og er mikilvægt að yfirfara þau verkfæri sem þarf í verkið. 

 • Gott er að setja undirbreiðslu undir viðarhúsgögnin til að vernda svæði fyrir óæskilegum efnum.
 • Við byrjum á að spreyja viðarhreinsi á allan viðarflötinn.  Athugið að mismunandi efni geta verið með mislanga virkni. Lesið því allar leiðbeiningar vel áður en efnin eru notuð.
 • Skrúbbum húsgögnin með stífum bursta og sköfum grámann í burtu.
 • Skolum af með vatni, ef háþrýstidæla er til staðar er fínt að notast við hana. 
 • Láta viðinn þorna vel.
 • Slípum létt yfir með sandpappír.
 • Setjum undirbreiðslu undir til að verja pallinn fyrir viðarolíunni.
 • Tökum viðarolíuna og berum hana á með pensli eða svampi
 • Þurrkum umframolíuna af borðinu með tusku eða bómullarklút.


Sláum grasið

Fallegur garður er vel við haldið og sláttur er stór partur af þessu viðhaldi. Hér förum við yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við garðslátturinn. 


Garðsláttur

Hvað þarf að hafa í huga áður en hafist er handa?

Áður en hafist er handa við grassláttinn er mikilvægt að yfirfara þau verkfæri sem þarf í verkið. Gott er að skipta um olíu á sláttuvélinni og brýna vel hnífana. Einnig er brýnt að fylla ekki eldsneyti á vélina á grasinu sjálfu.

Áður en byrjað er að slá er gott hreinsa burtu gamlar plöntuleifar, mosa, steina, rusl og aðra óæskilega hluti úr garðinum sem gætu skemmt sláttuvélarnar.

 • Í fyrsta garðslætti er grassvörðurinn afar viðkvæmur og því er ráðlagt að stilla sláttuvélina í hæstu stillingu. 
 • Forðast skal að slá niður í rótarháls þar sem það skaðar grassvörðinn
 • Mælt er með að nota breytilegar sláttustefnur til að jafna álagið á grasfletinum.
 • Að slætti loknum er mikilvægt að raka saman heyinu sem eftir situr á fletinum. Ef grasið liggur of lengi þá getur það súrnað og skemmt flötinn. 
 • Mikilvægt er að þrífa sláttuvélina strax til þess að hámarka endingu hennar. 

Garðsláttuvélar

Garðsláttuvélar er hægt að fá í öllum stærðum og gerðum en að grunninum til virka þær eins. Flestar koma þær með 4 x hjól, mótor, öryggishandfang, startspotta o.s.frv.

Mótor - Allar bensínsláttuvélar frá BYKO koma með fjórgengismótor sem þýðir að ekki þarf að blanda olíu í bensín eins og þarf við tvígengismótor, olían er í sérhólfi á fjórgengismótor. Á mótornum er nær alltaf rauð eða svört tútta sem nota skal þegar vélin er ræst köld, ýta skal 3 sinnum á túttuna og þá dælist bensín inn í brunahólfið sem hjálpar til við ræsingu.

Handfang - Á handfanginu er alltaf öryggishandfang sem halda þarf inni til að vélin fari í gang og haldist í gangi, ef því er sleppt þá drepst á vélinni. Á sumum vélum er líka drifhandfang sem er þá hinum megin við stöngina og drífur það vélina áfram í slætti. Einnig eru sumar vélar með hraðastilli og er hann þá staðsettur öðru megin á handfanginu.

Sláttuhæð - Flestar sláttuvélar eru með stillanlega sláttuhæð, mismunandi margar stilling eftir gerð sláttuvélar. Á sumum vélum er eitt handfang sem stillir öll hjól, algengara er þó að það þurfi að stilla hvert hjól fyrir sig.

Gangsetning garðsláttuvélar

Áður en garðsláttuvél er sett í gang í fyrsta skipti

 • Setjið mótorolíu í viðeigandi hólf. Nota skal smávélaolíu SAE 15-30 sem fæst í öllum verslunum BYKO.
 • Fyllið bensíntankinn af 95 oktan bensíni sem fæst á næstu bensínstöð. Ávallt skal nota ílát sem ætlað er undir bensín, bensínbrúsar fást í verslunum BYKO.
 • Gangið úr skugga um að engin óhreinindi komist hvorki í bensíntank né olíutank.
 • Komið vélinni fyrir utandyra á þann grasblett sem á að slá.
 • Yfirfarið vélina og athugið hvort ekki sé allt eðlilegt, ef vélin er með grassafnara þarf að tryggja að hann sé nægilega festur.
 • Gætið þess að nægjanlegt bensín (95 okt) og mótorolía (SAE 15-30) sé á sláttuvélinni.
 • Ýtið svo þrisvar á túttuna (rauð/svört) á mótornum.
 • Því næst skal halda öryggishandfangi inni, ef vélin er með hraðastilli skal stilla hann á startstöðu, síðan skal kippa í startspottann og endurtaka þangað til vélin fer í gang.
 • Varist að sleppa startspottanum þegar togað er, fylgið honum eftir til baka í upphafstöðu.
 • Ef vélin er með drif þá skal passa að halda ekki í það handfang á meðan sláttuvél er gangsett.

Öryggi í umgengni og við notkun garðsláttuvéla

 • Notið alltaf lokaða skó og síðbuxur þegar slegið er, æskilegt að skórnir séu með stáltá
 • Athugið alltaf sláttuflötinn áður en slegið er og fjarlægið alla aðskotahluti.
 • Alltaf skal loka bensíntanki örugglega.

Aldrei skal...

 • ... nota garðsláttuvél þar sem einhverjir eru viðstaddir. Þetta á sérstaklega við um börn og gæludýr.
 • ...stilla sláttuhæð á meðan sláttvélin í gangi, gerðu það áður en vélin er gangsett.
 • ...setja bensín á sláttuvélina innandyra, farið með sláttuvélina út áður en það er gert. Stranglega er bannað að reykja þegar bensín er sett á vélina.
 • ...fjarlægja lok af bensíntanki og setja bensín á sláttuvélina á meðan hún er í gangi eða þegar mótorinn er ennþá heitur.
 • ...setja sláttuvél í gang þar sem kann að hafa helst niður bensín, færa skal vélina á öruggan stað.
 • ...lyfta eða halla garðsláttuvél í slætti
 • ...slá í of miklum halla vegna slysahættu og hættu á að skemma mótor.
 • ...hlaupa á meðan slætti stendur, alltaf skal ganga.
 • ...fara með sláttuvél í gangi yfir t.d. malarborna stíga eða gangstéttar, drepið á vélinni áður en það er gert.
 • ... nota garðsláttuvél ef öryggishlífar eru brotnar eða rifnar, grassafnari er skemmdur eða annað sem getur valdið hættu við sláttinn.
 • ...neyta áfengis eða annarra vímugjafa fyrir eða á meðan slætti stendur.

Skv. Reglugerð Vinnueftirlitsins um vinnu barna og unglinga er óheimilt að ráða börn innan 16 ára aldurs til starfa sem fela í sér stjórnun á vélknúnum garðsláttuvélum, sbr. viðauka 1B (undanþága frá lista í viðauka 1A). Skv. viðauka 1C er þó heimilt að börn 15 ára og eldri sem vinna hjá fjölskyldufyrirtæki megi vinna með garðsláttuvélar. Varðandi meðferð garðsláttuvéla í vinnuskólum er bent á viðauka 5A og 5B.


Grassáning og mosi

Af hverju erum við að bera áburð á garðinn? Jú, flötin þarf góða næringu en gott er að gefa tvisvar sinnum um sumarið. Mikill mosi getur kæft grasið og þá er gott að nýta góð ráð til þess að losna við hann.


Grassáning og mosi

Hvenær berum við áburð á garðinn?

Gott er að bera á garðinn að vori þegar farið er að hlýja. Gott er að gefa tvisvar sinnum yfir sumarið, margir miða við miðjan maí og miðjan júní.

Hvernig berum við okkur að?

 1. Það fyrsta sem við gerum er að taka okkur hrífu í hönd og byrjum á því að tæta upp mosann. 
 2. Við ýfum vel upp grassvörðinn, rökum saman mosanum og setjum hann í fötu og færum hann yfir í moltugerð.
 3. Þar næst tökum við moldarpoka og grasfræ og sáum yfir flötinn.
 4. Tökum kalk og graskorn og dreifum vel yfir grasflötinn.
 5. Að endingu vökvum við garðinn með vatni.

Nokkur góð ráð gegn mosa

 • Grisjið hávaxin tré og hleypið þannig birtu að grasflötinni.
 • Notið mosaeyði og/eða mosatætara til að fjarlægja mosann.
 • Gatið flötina og setjið 3-5 cm lag af sandi yfir.
 • Berið áburðarkalk (náttúrukalk) á grasflötina, u.þ.b. 15 kg/100 m2 og blákorn/graskorn u.þ.b. 5 kg/100 m2. Blákorn skal síðan bera á einu sinni í mánuði yfir sumartímann en skammturinn minnkaður um 1 kg í hvert skipti.

Í sumum tilvikum getur verið nauðsynlegt að leggja drenrör í lóðina til að minnka rakann í jarðveginum. Mosi dafnar best á rökum og skuggsælum stað.

Að lokum kemur hér gamalt húsráð: Látið krakkana leika sér á lóðinni og traðka mosann niður.

Netspjallið

Þjónustufulltrúar aðstoða þig alla virka daga frá 8:30-16:30.

Opna spjallið.Þetta vefsvæði byggir á Eplica