Leita
Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Þjónusta

Sjálfbærni

Spurt og svarað um umhverfismál

Spurt og svarað um umhverfismál

Hér má finna svör við ýmsum spurningum varðandi umhverfismál og sjálfbærni sem kynnu að vakna hjá viðskiptavinum BYKO.

Pappírsáferð
Sjálfbær nytjaskógur
Eigin starfsemi

Hvað þýðir blár borði merktur "Vistvænt" á vöru á heimasíðunni?

Ef þú smellir á vöru sem er með bláan borða, mynd af hnetti og merktur "Vistvænt" getur þú fengið nánari upplýsingar um umhverfismál vöru.

Hvers vegna get ég ekki fengið reikningana senda sem PDF skjal og sleppt öllum pappír?

Sölukerfið sem hefur verið í notkun hjá okkur býður ekki upp á þann möguleika að hafna kvittunum og senda reikninga rafrænt. Við erum hinsvegar í ferlinu að innleiða nýtt afgreiðslukerfi sem býður upp á ýmsa möguleika og bindum við vonir að nýja kerfið geri okkur kleift að draga úr óþarfa pappírsnotkun og að við færum okkur yfir í rafræna reikninga.

Eru umhverfisvænar vörur betur merktar og staðsettar í verslunum ykkar?

Já, við höfum tekið ákvörðun um að merkja vistvænar og umhverfisvottaðar vörur sérstaklega og eru viðeigandi merkingar hjá verðskjá vörunnar í hillum í verslunum okkar. Einnig eru þær tilgreindar á heimasíðunni okkar og hægt að fá yfirlit yfir þær vistvænu vörur sem eru til sölu hjá okkur. Við merkjum vörur sem eru Svansvottaðar, með Evrópublómið, Bláa engilinn og Leyfilegar í vistvæn hús.

Er starfsfólk BYKO þjálfað í að veita viðskiptavinum ráðgjöf út frá umhverfissjónarmiði?

Já, starfsfólk okkar situr umhverfisnámskeið og er áhersla lögð á að starfsfólk geti miðlað upplýsingum og leiðbeint viðskiptavinum. Við erum einnig með virkan innri vef þar sem ítarefni er dreift þar inn til starfsfólks.

Hafið þið aldrei hugleitt að hætta að selja vörur sem að eru mjög óumhverfisvænar?

Sú umræða hefur komið upp og mun BYKO ekki hætta að selja vörur sem teljast ekki vistvænar en við ætlum að gera þær minni sýnilegar í verslunum okkar. Við höfum hinsvegar tekið ákvörðun um að auka framboð af vistvænum vörum til muna og höfum nú þegar náð góðum árangri.

Hvað ætlið þið að gera vegna magn plasts sem fylgir innfluttum vörum?

Því miður er of mikið af vörum sem koma til okkar sem er pakkað í plast. Við höfum fengið margar ábendingar frá viðskiptavinum, sem og starfsfólki okkar, og erum við að skoða hvernig við getum leyst þetta, meðal annars í gegnum innkaupasambönd okkar erlendis.

Garður
Vistvænar vörur

Hvað er óháð eða viðurkennt umhverfismerki?

Þegar það er talað um óháð eða viðurkennt umhverfismerki er almennt átt við umhverfismerki sem eru starfrækt í samræmi við alþjóðlega staðla svo sem ISO 14026. Megin einkenni slíkra merkja er að kröfurnar á bak við merkin eru settar fram að óháðum og hlutlausum aðilum. Yfirleitt í samstarfi atvinnulífs, opinberra aðila og umhverfissamtaka.

Hver rekur norræna umhverfismerkið Svaninn?

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svanurinn „fæddist“ árið 1989 þegar norræna ráðherranefndin ákvað að setja á laggirnar umhverfismerki til að auðvelda neytendum að velja vörur sem væru betri fyrir umhverfið. Í upphafi voru það pappír, rafhlöður og hreinlætisvörur sem voru vottaðar en núna er hægt að votta hundruð vöruflokka og þjónustu, þar með talið íbúðarhús, leikskóla og skóla.

Hver er umsjónaraðili Svansins á Íslandi?

Skrifstofa Svansins á Íslandi er vistuð hjá Umhverfisstofnun sem sér um vottun og utanumhald um vottaðar vörur á Íslandi

Hver er tilgangurinn með Svaninum?

Tilgangurinn með Svaninum er að hjálpa neytendum að velja þá vöru sem er á markaðnum og er best með tilliti til umhverfisins. Það er hægt að votta vörur sem í sjálfu sér eru ekki umhverfisvænar (svo sem sláttuvélar) en markmiðið er að hjálpa viðskiptavinum en markmiðið er að hjálpa viðskiptavinum að finna þá vöru innan vöruflokksins sem er best úr umhverfissjónarmiði (t.d. bestu sláttuvélina úr umhverfissjónarmið). Á þann máta drífur Svanurinn áfram vöruþróun í átt að umhverfisvænni vörum.

Hvaða kröfur setur Svanurinn?

Kröfur Svansins eru mismunandi eftir vöruflokkum en það er hægt að Svansvotta á annað hundrað vöruflokka. Almennt gildir að kröfur Svansins ná yfir allan líftíma vörunnar, framleiðslu – notkun – förgun. Það felur meðal annars í sér að gerðar eru kröfur um eftirfarandi:

Orkunotkun á framleiðslutíma og líftíma vörunnar
Efnanotkun við framleiðslu vörunnar
Að varan innihaldi ekki ákveðin umhverfis- eða heilsuskaðleg efni eins og efni sem eru krabbameinsvaldandi, hormónatruflandi, hafi áhrif á fóstur eða hafi langtímaáhrif á lífríki.
Auðlindanoktun við framleiðslu og endurvinnslu
Úrgangsstjórnun og losun á skaðlegum efnum í andrúmsloftið, mark og vatn.
Kolefnisspor

Auk ofangreinds gerir Svanurinn kröfur um ákveðin gæði og virkni vörunnar.

Hver gerir kröfur Svansins?

Kröfurnar eru teknar saman í samstarfi sérfræðinga frá viðkomandi atvinnugreinum, umhverfissamtökum og opinberum stofnunum. Áður en kröfur eru samþykktar eru þær sendar út til umsagnar til hagsmunaaðila í þeim löndum sem kröfurnar gilda (yfirleitt Norðurlöndin).

Borga framleiðendur / seljendur fyrir Svansvottun?

Umhverfisstofnun innheimtir tvennskonar gjald fyrir notkun á Svansmerkinu

Umsóknargjald sem er innheimt þegar sótt er um Svansleyfi. Þetta gjald er á bilinu 165 til 330 þúsund krónur eftir stærð fyrirtækjanna. Þegar leyfi er endurnýjað, yfirleitt á þriggja ára fresti þá þarf að greiða hálft umsóknargjald

Veltutengt gjald sem er 0,3% af veltu vörunnar þó með ákveðnu hámarki

Fyrir vöru sem er eingöngu seld á Íslandi er hámarkið 2.700 þúsund krónur á vöru.

Hámarksgjald er þó aldrei meira en 5.400 þúsund á fyrirtæki óháð fjölda vara

Gjaldið er innheimt af söluverði leyfishafa sem í almennu orðalagi þýðir að það er innheimt af heildsöluverði en ekki smásöluverði

Þetta þýðir að fyrir vöru sem kostar 1.000 krónur í framleiðslu eru greiddar 3 krónur fyrir Svansleyfið (óháð smásöluverði til notenda).

Hvað er grænþvottur?

Hvað snertir umhverfismerki þá telst það grænþvottur þegar fyrirtæki gera sín eigin umhverfismerki til að reyna að láta í það skína að varan sé umhverfisvottuð með óháðu eða viðurkenndu umhverfismerki. Einkenni þessara merkja er oft að það er verið að leggja áherslu á eitt umhverfisatriði, t.d. að ræstiefni sé án klórs, og það blásið upp án þess að heildarumhverfisáhrif vörunnar séu skoðuð úr líftímasjónarhorni

Hvað er Evrópublómið?

Evrópublómið er opinbert umhverfismerki Evrópusambandsins. Það fylgir sambærilegri aðferðarfræði og uppbyggingu og Svanurinn. Á Íslandi er það Umhverfisstofnun sem er fulltrúi Evrópublómsins.

Hvað er Blái Engillinn?

Blái engillinn er þýskt umhverfismerki frá árinu 1978 og er elsta umhverfismerki í heimi. Merkið er þróað í samvinnu þýskra umhverfisyfirvalda, neytendasamtaka og heildarsamtaka iðnaðarins í Þýskalandi. Vörur merktar Bláa englinum eru seldar á Íslandi en Blái engillinn er ekki með skrifstofu hérlendis.

Eru Blái Engillinn, Svanurinn og Evrópublómið sambærileg?

Þessi þrjú merki eru öll óháð og viðurkennd umhverfismerki. Uppbygging þeirra er sambærileg hvað varðar kröfur og skipulag. Kröfur þeirra í mörgum málaflokkum eru einnig mjög sambærilegar

Hvað er FSC vottun?

FSC er vottun um sjálfbæra skógrækt. Vottunin segir okkur að ekki eru felld fleiri tré en skógurinn nær að endurnýja, s.s. það er ekki verið að ganga á auðlindir og þerra þær út.

Vottunin tryggir einnig að:
Dýra- og plöntulíf er verndað
Starfsmenn skógræktarinnar fá nauðsynlegan öryggisútbúnað og mannsæmandi laun

Merkið felur hinsvegar ekki í sér lífræna vottun og er tilgangur merkisins er að fá framleiðendur til að taka meiri ábyrgð á umhverfislegum-, félagslegum- og hagrænum þáttum í skógrækt.

Hvað er PEFC vottun?

PEFC vottun er svipuð vottun og FSC en PEFC tryggir að timbrið kemur frá sjálfbærri skógrækt þar sem tekið er tillit til umhverfismála, félags- og efnahagslegra aðstæðna og líffræðilegs fjölbreytileika starfsmanna skógræktarinnar.

Gefur FSC og PEFC vottun til kynna umhverfisvæna framleiðslu á vöru?

Nei, FSC og PEFC vottun gefur einungis til kynna að timbrið sem notað var í framleiðslu á vöru var fengið frá sjálfbærri skógrækt. Til dæmis drykkjarvöruumbúðir sem bera FSC merkið, merkið segir eingöngu að timburhráefnið (pappinn) er úr sjálfbærri skógrækt. Merkið tryggir ekki að önnur framleiðsla á umbúðunum og innihaldið sé sjálfbær.

Valmynd