Umhverfismerki

Upplýsingar um umhverfismerki, vottanir og yfirlýsingar

Um umhverfismerki

 

Flóra umhverfismerkja er ansi mikil og stundum erfitt fyrir fólk að skilja á milli trúverðugra og ótrúverðugra merkja. Í stuttu máli má skipta umhverfismerkjum í tvo flokka.

Tegund I

eru umhverfismerki sem taka tillit til margra umhverfisþátta á líftíma vörunnar, eru byggð á viðmiðum óháðs þriðja aðila sem einnig er úttektaraðili og staðfestir að viðkomandi vara eða þjónustu uppfylli viðmiðin.

Tegund II

eru merki tekin fram af fyrirtækjum um umhverfiságæti eigin vara. Fyrirtækin ákveða sjálf eigin viðmið og það er allur gangur á því hvort upplýsingarnar eru yfirfarnar af óháðum þriðja aðila.  Þessi merki geta náð yfir hvort heldur sem er einn eða fleiri umhverfisþætti.

Almennt eru tegund I, þriðja aðila, umhverfismerki talin til áreiðanlegra og viðurkenndra umhverfismerkja.  Tegund II merki eru á hinn bóginn almennt ekki talin áreiðanleg og oft notuð til að veita vörum grænan blæ sem stenst ekki við nánari skoðun.

 

 Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og var stofnað af norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Svanurinn er þekktasta umhverfismerki Norðurlandanna og með skrifstofu í hverju landi fyrir sig sem sér um vottanir í sínu landi. Á Íslandi er skrifstofa Svansins hýst hjá Umhverfisstofnun.

 Evrópublómið

Evrópublómið er sameiginlegt merki landa Evrópusambandsins. Ákvörðunin um stofnun þess var tekin árið 1992. Uppbygging Evrópublómsins er sambærileg við Svaninn og er skrifstofa Blómsins hjá Umhverfisstofnun.

 Blái engillinn

Blái engillinn er þýskt umhverfismerki sem var sett á laggirnar árið 1978 og er þar af leiðandi elsta umhverfismerki í heimi. Merkið er þróað í samvinnu þýskra umhverfisyfirvalda, neytendasamtaka og samtaka iðnaðarins. Styrkleikar merkisins eru fyrst og fremst í Þýskalandi og Mið-evrópu. Það eru samt margar vörur á Íslandi, ekki síst byggingavörur sem bera Bláa engilinn.

Leyfilegt í Svansvottað hús

Varan er leyfileg í Svansvottað hús. Það þýðir ekki að hún sé svansvottuð heldur að búið sé að fara yfir að uppfyllt séu lágmarks viðmiðunarmörk fyrir umhverfis- og heilsuskaðleg efni.

Það er hægt að fá vöru leyfða af Svaninum til notkunar í Svansvottaða byggingu án þess að varan sjálf sé umhverfisvottuð. Ástæðan er sú að það er ekki hægt að umhverfisvotta margar vörutegundir og í sumum tilfellum eru svo fáar vörur innan vörutegundar sem eru vottaðar að það myndi hafa veruleg áhrif á samkeppnisaðstæður og þar með möguleika á að fá byggingar vottaðar.

Til þess að Svanurinn leyfi vörur í vottaðar byggingar þurfa vörurnar að uppfylla ákveðin grunnviðmið sem eru ekki nærri eins ströng og að fá vöru vottaða. Það má frekar segja að það sé verið að tryggja að öll umhverfisskaðlegu og heilsuspillandi efnin eru ekki leyfð í samþykktum byggingavörum.

Vara sem er Leyfileg í Svansvottað hús er þar af leiðandi ekki umhverfisvottuð en það er búið að tryggja að hún innihaldi ekki mjög umhverfis- eða heilsuskaðleg efni.

Rekjanleikavottanir

 

Rekjanleikavottanir fjalla um sjálfbæra framleiðslu á hráefni og þá er yfirleitt verið að horfa á náttúruafurðir og matvæli. Mikilvægur hluti vottunarinnar er rekjanleiki frá sjálfbærri framleiðslu til neytenda. Hver og einn milliliður í ferlinu, sama hvort um er að ræða söluaðila eða framleiðsluaðila sem nýtir hráefni, þarf að vera með rekjanleikavottun til að hægt sé að selja efnið eða vöruna sem „sjálfbæra framleiðslu“. Rekjanleikavottun er ekki umhverfisvottun þar sem hún nær eingöngu yfir hráefnið sem er vottað en ekki hvernig það hefur verið meðhöndlað á síðari stigum. Sem dæmi má nefna að timbur í krossviðarplötum getur verið með rekjanleikavottun en krossviðurinn síðan límdur saman með lími sem inniheldur skaðleg efni. Lokaafurðin er þar af leiðandi ekki vottuð en timbrið er rekjanleikavottað.

Af hverju eru skógar mikilvægir?

Skógar gegna mikilvægu hlutverki fyrir umhverfi, íbúa og efnahag heimsins. Að auki eru þau nokkur af auðugustu líffræðilegu svæðum jarðarinnar sem létta á áhrifum loftslagsbreytinga og náttúruhamfara.
Þau bjóða einnig upp á mat, endurnýjanlegt hráefni fyrir margar af vörum okkar og lífsviðurværi fyrir milljónir manna.

 

FSC

FSC vottun stendur fyrir enska heitið Forest Stewardship Council.
FSC táknar að varan sem unnin eru úr timbri kemur frá sjálfbærri skógrækt.

Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu FSC, www.fsc.org/en

 

PEFC

PEFC vottun stendur fyrir enska heitið Programme for the Edorsement of Forest Certification schemes.
PEFC táknar að varan sem unnin eru úr timbri kemur frá sjálfbærri skógrækt.

Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu PEFC www.pefc.org/
 

Umhverfisyfirlýsingar

EPD

EPD stendur fyrir enska heitið Environmental Product Declaration

Staðlaðar yfirlýsingar um umhverfiseiginleika vöru. Það má segja að EPD sé eins og innihaldslýsing á matvælum - í stað næringarinnihalds er upptalning á efnainnihaldi og umhverfisáhrifum vörunnar.

Yfirlýsingarnar eru eins uppbyggðar með tilliti til umhverfisatriða óháð vöruflokkum (ólíkt umhverfismerkingum) þar sem reynt er að magntaka efnanotkun og umhverfisáhrif á hlutlægan máta.  EPD er byggt á líftímagreiningu á staðaleiningu vöru.  Staðaleining á matvælum er yfirleitt 100 grömm en í EPD getur það  til dæmis verið einn fermetri af gólfefni.  Staðaleiningar fyrir vöruflokka eru alþjóðlega skilgreindar. 

EPD eru yfirleitt tekin fram af fyrirtækjunum sjálfum (eða ráðgjöfum á þeirra vegum).  Í flestum tilfellum eru þær síðan yfirfarnar af óháðum þriðja aðila og eru þar af leiðandi taldar nokkuð áreiðanlegar.

Helsti ókostur EPD er að þær eru almennt óaðgengilegar til yfirlestrar og erfitt að túlka fyrir aðra en fagfólk.  EPD er heldur ekki vottun þannig að það er ekki nein vissa fyrir því að vara með EPD sé betri fyrir umhverfið en aðrar vörur. 

Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu EPD www.environdec.com/

Hversu umhverfisvænt er „umhverfisvænt“?

 

Það eru afskaplega fáar vörur í eðli sínu umhverfisvænar því þær hafa allar einhver umhverfisáhrif. Það sem almennt er átt við er að umhverfisvænar vörur eru betri fyrir umhverfið en almennt gengur og gerist á markaðnum.  Þumalputtareglan er að 30-50% af vörum á markaði eigi að geta verið umhverfisvottaðar. Eftir því sem markaðurinn verður umhverfisvænni þá herða umhverfismerkin sín viðmið. Það gerist á um þriggja til fimm ára fresti. Þannig eiga sér stað stöðugar framfarir. Vara sem hefur einu sinni verið umhverfisvottuð getur þar af leiðandi misst vottunina án þess að umhverfiseiginleikar hennar hafi breyst, þar sem viðmiðin hafa skerpst.

 „Grænt“ er því ekki endilega „umhverfisvænt“ heldur bara betra fyrir umhverfið en almennt gengur og gerist.

Vefkökur

Velkomin í vefverslun Byko. Þessi síða notar vafrakökur (e. Cookies). Það er til þess að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að halda áfram notkun síðunnar, samþykkir þú notkun vafrakaka.